Innlent

Enn kveikt í á Suðurnesjum

Tvívegis hefur verið kveikt í ruslagámum á Suðurnesjum á síðasta sólarhringnum. Fyrst í gærkvöldi í Garði um klukkan tíu en í síðara skiptið kviknaði í gámi sem stóð við íbúðablokk á gamla varnarliðssvæðinu. Gámarnir stóðu í báðum tilfellum upp við íbúðahús en eldurinn náði sem betur fer ekki að læsa sig í húsin áður en hægt var að slökkva.

Grunur liggur á að brennuvargar gangi lausir á svæðinu en þetta eru ekki fyrstu brunarnir af þessu tagi á Suðurnesjum síðustu daga.

Um helgina var kveikt í byggingu við Hafnarbraut í Njarðvík og þá brann braggi á gamla vallarsvæðinu við Keflavík á nýársdag en bragginn hýsti eitt sinn Sölu varnarliðseigna.

Að síðustu brann Krísuvíkurkirkja til kaldra kola á dögunum og leikur grunur á að kveikt hafi verið í húsinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×