Innlent

Reyndi að hjálpa en var stunginn þrisvar

Ágúst Fylkisson Var stunginn þrisvar með skrúfjárni þegar hann reyndi að koma tveimur ungum stúlkum til hjálpar á nýársnótt. Fréttablaðið/Daníel
Ágúst Fylkisson Var stunginn þrisvar með skrúfjárni þegar hann reyndi að koma tveimur ungum stúlkum til hjálpar á nýársnótt. Fréttablaðið/Daníel

Ágúst Fylkisson bílstjóri var stunginn þrisvar sinnum með ydduðu skrúfjárni þegar hann reyndi að koma tveimur stúlkum til aðstoðar á nýársnótt.

„Ég var edrú og á leiðinni heim til mín í Blöndubakka úr Vesturbergi í Efra-Breiðholti. Við vorum á heimleið fjölskyldan en við vorum of mörg í bílinn svo ég ákvað að labba og koma við hjá mági mínum í Eyjabakka og óska honum gleðilegs nýs árs. Þegar ég kem fyrir endann á blokkinni sé ég mann standa þar með tveimur stelpum. Allt í einu hrindir hann annarri þeirra í götuna. Hún liggur þar hágrátandi þegar ég kem að og hin stelpan er hágrátandi líka.“

Ágúst segist hafa reynt að halda manninum frá stúlkunum, sem hlupu inn í anddyri blokkarinnar. Hann hafi spurt aðra þeirra hvað gengi á og hafi hún þá sagt honum að maðurinn væri fyrrverandi sambýlismaður móður hinnar stúlkunnar. Eftir að móðirin hafi slitið samvistum við hann hafi hann endurtekið komið aftur. Í þetta sinn hafi hann sagst ætla að drepa dóttur konunnar.

Þá fór Ágúst aftur að manninum og reyndi að leiða hann í burtu frá blokkinni. „Þá finn ég að hann er að slá í síðuna á mér og sé að hann er með skrúfjárn sem búið er að ydda. Ég hafði engan kost annan en að spóla í hann og náði honum undir mig. En ekki fyrr en hann var búinn að stinga mig þrisvar, í bakið, upphandlegginn hægra megin og veita mér rispu á kviðinn. Hann endurtók allan tímann „I‘m kill you, I‘m kill you“.“

Verstan segir hann áverkann á bakinu en þar hafi skrúfjárnið stungist tvo sentimetra inn í hann og verið fáeinum millimetrum frá því að stingast inn í lunga. Alla nóttina hafi hann verið í rannsóknum og hann mætti teljast heppinn að ekki hafi farið verr.

Á meðan á átökunum stóð hringdu bæði stúlkurnar og mágur Ágústs á lögregluna sem var fljótt komin á staðinn og hafði árásarmanninn á brott með sér. Honum var sleppt daginn eftir en ekki fást frekari upplýsingar hjá lögreglunni um framgang málsins. Í dag ætlar Ágúst að leggja fram kæru á hendur manninum.

Ágúst komst í fréttirnar í apríl í fyrra þegar hann réðst á lögregluþjón í mótmælum bílstjóra á Kirkjusandi. Hann iðraðist atviksins og sendi frá sér afsökunarbeiðni. Fyrir árásina hlaut hann dóm og sat inni í þrjár vikur í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. holmfridur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×