Innlent

Slys nánast daglega um borð í íslenskum skipum

Karen Kjartansdóttir skrifar

Nánast daglega er tilkynnt um slys um borð í íslenskum skipum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sýnir jafnframt að huga þarf betur að vinnuaðferðum um borð í skipum.

Sjómennska er talin hættulegust allra starfa að því er fram kemur í rannsókn sem birt er í nýjasta hefti Læknablaðsins. Flest banaslys við störf verða á sjó og tíðni vinnuslysa, annarra en banaslysa, er einnig mun meiri meðal sjómanna en í öðrum starfsgreinum.

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna umfang slysa á sjómönnum hér á landi árin 2001 til 2005 með því að afla sem bestra upplýsinga um orsakir og við hvaða aðstæður slysin urðu og hvaða afleiðingar þau höfðu í för með sér. En slíkar upplýsingar mætti nýta í forvarnarstarfi til að auka öryggi sjófarenda.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að umtalsverður árangur virðist því hafa náðst í slysavörnum sjómanna undanfarna fjóra áratugi. Ætla megi að menntun skipstjórnarmanna og þjálfun sjómanna í Slysavarnaskóla sjómanna hafi skilað góðum árangri, en ýmsir aðrir þættir gætu einnig skipt máli svo sem bætt þyrlubjörgunarþjónusta, framfarir í veðurfræði og veðurspám, framfarir í siglingatækni og betri skip.

Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að á rannsóknartímabilinu urðu 17 banaslys.

Á sama tímabili bárust Tryggingarstofnun 1787 tilkynningar vegna slysa sjómanna en það jafngildir því nánast að tilkynnt væri um slys á sjómanni daglega.

Alls voru 223 metnir með varanlega örorku.

Tæplega 90 prósent slysanna urðu á fiskiskipum. Flest slysanna urðu í góðu veðri, við góðar aðstæður og meðal reyndra sjómanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×