Skoðun

Bréf til Reykvíkinga

Ari Teitsson skrifar
Í fréttum 23. júlí var sagt frá athugun Reykjavíkurborgar á hagkvæmni þess að stofna eigin banka til að eiga aðgang að hagkvæmara lánsfé fyrir borgina. Af fréttinni má ráða að þeir bankar sem starfa í borginni uppfylli ekki þarfir borgarsjóðs hvað þetta varðar. En það er ekki bara borgarsjóður sem þarf hagkvæmt lánsfé heldur einnig þau fyrirtæki og einstaklingar sem í borginni starfa.

Áður störfuðu í Reykjavík sparisjóðir sem höfðu það markmið að tryggja borgarbúum hagkvæma bankaþjónustu m.a. með því að taka við innlánum borgarbúa og öðru lausu fé og veita því til lántakenda með lágmarkskostnaði. Í því ástandi sem nú ríkir virðist þörf fyrir slíka þjónustu síst minni. Því virðist eðlilegt að sá valkostur sé einnig skoðaður að borgarstjórn taki höndum saman við borgarbúa um að stofna sparisjóð sem starfi á upphaflegum grundvelli sparisjóðahugsunar.

Vafalaust munu ýmsir telja slíkt framtak úrelta hugsun og hluta­félagaformið, einstaklingsframtakið og gróðahyggjan tryggi hagkvæmustu bankalausnir, þótt draga megi slíkt í efa í nýju ljósi sögunnar. Það er hins vegar hlutverk nýrrar forustu Reykjavíkurborgar að leita þeirra lausna sem í bráð og lengd þjóna best hagsmunum borgarinnar og íbúa hennar. Stofnun sparisjóðs með skýr þjónustumarkmið eða yfirtaka Byrs með sömu markmið í huga er þar valkostur.




Skoðun

Sjá meira


×