Handbolti

Dagur: Fannst ég ekki gera Íslandi grikk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis.
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis. Mynd/Leena Manhart
Dagur Sigurðsson var vitanlega kampakátur með stigið sem Austurríki náði gegn Íslandi í kvöld með því að skora þrjú mörk á síðustu 50 sekúndum leiksins.

 Hann segist þó ekki hafa velt því fyrir sér hvort leikurinn væri tapaður áður en kom til þess.

 „Ég verð nú að viðurkenna að ég var ekkert að hugsa um það. Ég var frekar að velta fyrir mér hvað ég gæti gert til að koma liðinu til aðstoðar,“ sagði Dagur við Vísi eftir leikinn í kvöld en sem kunnugt er er hann landsliðsþjálfari Austurríkis.

 Þó svo að það hafi verið margt gott við leik Austurríkis í kvöld var hann ekki sáttur við allt við leik liðsins.

 „Við fengum of mörg mörk á okkur sem komu úr aðstæðum sem ég var búinn að undirbúa þá betur fyrir. Þar voru nokkur atriði í varnarleiknum sem ég hefði viljað að þeir hefði leyst betur. Það var til dæmis alls ekki gott að fá 20 mörk á sig í fyrri hálfleik.“

 Hann segir að ýmislegt hafi komið sér á óvart í leik íslenska liðsins í kvöld.

 „Ég sagði það fyrir leikinn að ég ætti von á að sjá meira til leikmanna eins og Loga og Arons og var búinn að undirbúa liðið fyrir það. Ég átti líka von á að sjá 5-1 vörnina með Guðjón Val fremstan en það kom ekki.“

 Dagur spilaði lengi með íslenska landsliðinu og með mörgum af þeim sem eru enn að spila með því í dag.

 „Mér fannst ég ekki vera að gera Íslandi neinn grikk í kvöld. Leikjunum lýkur bara eins og þeim lýkur og hver er sinnar gæfu smiður. Stemningin í höllinni var frábær og það gerist ekki að sjálfu sér að það sé full höll á  handboltaleik í Austurríki. Það er greinilega komin mikill meðbyr með liðinu og er gaman að því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×