Handbolti

Guðjón Valur: Má ekki vanmeta Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/Leena Manhart

„Ég mun ekki koma til með að vanmeta Austurríki. Það má til dæmis alls ekki gleyma að þeir hafa heimavöllinn og áhorfendur með sér á þessu móti,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handbolta.

Ísland mætir í kvöld Austurríki á Evrópumeistaramótinu en þetta er lykilleikur fyrir íslenska liðið. Það þarf einfaldlega á sigri að halda í kvöld.

Austurríki hefur hins vegar ekki verið hátt skrifað í handboltaheiminum undanfarin ár og er að spila á sínu fyrsta stórmóti í langan tíma.

„Þeir eru að spila á fyrsta stórmóti og það á heimavelli. Það skiptir líka mjög miklu máli. Svo þekki ég fyrirliðann þeirra [Viktor Szilagyi] vel og ég veit hvað þetta skiptir leikmenn miklu máli og er þeim mikilvægt.“

„Ég hef því litlar áhyggjur af því að við munum vanmeta þá. Það sem mestu máli skiptir að menn séu með hausinn í lagi og tilbúnir að gefa allt sitt í leikinn. Það er okkar vörumerki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×