Handbolti

Danir komnir áfram eftir fimm marka sigur á Serbum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Knudsen var valinn besti maður Dana í kvöld.
Michael Knudsen var valinn besti maður Dana í kvöld. Mynd/AFP
Danir tryggðu sér sæti í milliriðli með 28-23 marka sigri á Serbum í seinni leik dagsins í íslenska riðlinum á Evrópumótinu í handbolta í Austurríki. Danir eru með fullt hús en þurfa samt að mæta Íslendingum í úrslitaleik um sigurinn í riðlinum á laugardaginn.

Danir tóku strax völdin í leiknum og voru með sex marka forskot í hálfleiknum, 15-9. Danir voru síðan fljótlega komnir með sjö marka mun í seinni hálfleiknum og voru sjö mörkum yfir, 23-16, þegar sextán og hálf mínúta var eftir.

Serbar komu muninum niður í fjögur mörk með því að skora þrjú mörk í röð á lokasprettinum og náðu síðan að minnka muninn í þrjú mörk þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Danir voru hinsvegar sterkari á taugum en Íslendingar og tryggðu sér sigurinn.

Anders Jensen skoraði 10 mörk úr 11 skotum hjá Dönum, Hans Lindberg og Mikkel Hansen skoruðu fimm mörk og Michael Knudsen var með fjögur mörk.

Zarko Sesum, Ivan Stankovic og Momir Ilic skoruðu allir fjögur mörk fyrir Serbíu.

Danir hafa unnið tvo fyrstu leiki sína en vinni Íslendingar Dani á laugardaginn tryggja strákarnir okkar sér ekki bara sæti í milliriðli heldur einnig sigur í riðlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×