Innlent

Fjármálaráðherra: Menn á villigötum telji þeir aðstæður ekki alvarlegar

Heimir Már Pétursson skrifar

Fjármálaráðherra segir menn á miklum villigötum ef þeir haldi að aðstæður á Íslandi séu ekki alvarlegar. Forsætisráðherra segir öll lán til fjárfestinga, atvinnulifs, orkuframkvæmda og sveitarfélaga stöðvast á meðan Icesavemálið og efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu í óvissu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave lögin fer fram laugardaginn 6. mars og utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst á fimmtudag í næstu viku, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar í samráði við dómsmálaráðherra og landskjörstjórn.

Forsætis- og fjármálaráðherra sögðu ekkert liggja fyrir eftir viðræður við Breta, Hollendinga, Norðurlöndin og evrópusambandið hvort nýjar samningaviðræður fari fram. Svör við því gætu legið fyrir á morgun. En í gærkvöldi náðu forystumenn stjórnar og stjórnarandstöðu samkomulagi um hvernig yrði skipað í samninganefnd Íslands komi til viðræðna.

Fjármálaráðherra segir Íslendinga geta haft alls konar hugmyndir um nýjar samningaviðræður, en þeir ráði ekki ferðinni þar einir.

Standard or Poors og fleiri hafa lýst dökkum aðstæðum á Íslandi náist ekki niðurstaða í Icesavemálinu, með Ísland í rusllánaflokki og enn frekara falli krónunnar.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að það geti hver og einn lesið í þær aðstæður sem uppi eru nú. Hann bætir við að ef menn telji þetta ekki alvarlegar aðstæður þá eru hinir sömu á villigötum. Sjálfur segist hann hafa djúpar áhyggjur.

Forsætisráðherra tekur undir þetta og varar við þvi að það dragist að fá endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar með lán þaðan og frá Norðurlöndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×