Innlent

Ákvörðun Fitch er bara táknræn

Jón Daníelsson.
Jón Daníelsson.

Ákvörðun Fitch um að lækka lánshæfiseinkunn Íslands í ruslflokk er fyrst og fremst táknræn og hefur enga raunverulega þýðingu í bili, segir Jón Daníelsson, hagfræðingur. Að mati Jóns er enn hægt að ná farsælli niðurstöðu í Icesave málinu. Þar skipti miklu að skipa þverpólitíska nefnd til viðræðna við Breta og Hollendinga.

Jón Daníelsson er hagfræðingur við London School of Economics. Hann segir þá ákvörðun matsfyrirtækisins Fitch að lækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í ruslflokk fyrst og fremst vera táknræna. Hún hafi enga raunverulega merkingu til skamms tíma.

Jón bendir á að þetta hefði áhrif á lán ríkisins en að ríkið sé ekki að taka pening að láni hvort sem er - ef íslenska ríkinu gengur illa í framtíðinni þá hefði Ísland hvort sem er dottið niður í ruslflokk, og ef hagkerfið réttir úr kútnum eins og hann segist gera ráð fyrir myndi matið hækka hvort eð er. „Þannig að ég sé ekki að þetta skipti neinu raunverulegu máli," segir Jón og bætir við að stærsta vandamálið sé hvað Icesave hefur truflað mikið uppbyggingarstarf ríkisstjórnarinnar.

„Vandamálið er fyrst og fremst pólítískt vandamál á Íslandi segir Jón en að hans sögn hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessa stöðu ef upphaflega Icesave samninganefndin hefði verið þverpólítískt skipuð, fulltrúum frá öllum flokkum og hagsmunaaðilum. „Þá hefði væntanlega myndast breiðari samstaða hjá stjórnmálamönnum og almenningi um málið með farsælli niðurstöðu."

„Þetta er eitthvað sem ennþá er hægt að gera þannig að ef hægt er að losa um pólitísku tökin á þessu og vera með þverpólítíska nefnd að semja við útlendingana sé hægt að skapa miklu meiri sátt í samfélaginu," segir Jón Daníelsson að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×