Lífið

Ekur um Rangárvallasýslu í flottasta leigubíl landsins

Jón Pálsson og nýi jeppinn sem hann fékk afhentan á Selfossi á fimmtudaginn.
Jón Pálsson og nýi jeppinn sem hann fékk afhentan á Selfossi á fimmtudaginn.

„Það er málið að bjóða flotta þjónustu og flotta bíla í dag. Maður fær það til baka með meiri vinnu," segir leigubílstjórinn Jón Pálsson.

Jón fékk afhentan nýjan Land Cruiser á Selfossi á föstudag, sem er vafalaust einn flottasti leigubíll landsins, enda er grunnverð á svona glæsikerru frá 12 milljónum króna. Hann býr í Rangárvallasýslu og hefur starfað þar sem leigubílstjóri í sex ár. „Þetta er sjöundi Land Cruiserinn sem ég eignast," segir Jón, sem var staddur í Reykjavík að láta koma fyrir verðmæli og setja GPS-tæki í bílinn þegar Fréttablaðið náði í hann. „Þetta er Land Cruiser 150. Dýrasta týpan, VX - allt í leðri og rafmagni."

Jón er harður Land Cruiser maður og ók síðast um á 120-týpunni. Á vefsíðu Toyota kemur fram að jeppinn sé hannaður til að takast á við erfiðustu akstursskilyrði með afburðafimi og stöðugleika. Eitthvað sem kemur sér vel í Rangárvallasýslunni þar sem skilyrðin geta verið afar frábrugðin þeim sem höfuðborgar­búar þekkja.

Jón þarf ekkert að óttast þar sem á vefsíðunni kemur enn fremur fram að erfiðustu áskoranir verði eins og hversdagslegur akstur með framúrskarandi útbúnaði sem veitir stuðning til að komast yfir hinar erfiðustu hindranir. Hann er því eins og gefur að skilja ekki í vafa um að nýi gullslegni Cruiserinn sé sá langflottasti sem hann hefur nokkurn tíma ekið. „Það er engin spurning. Það er algjör draumur að keyra hann," segir Jón. „Ég er alveg sannfærður um að farþegarnir munu kunna að meta hann."

Hótelgestir í Rangárvallasýslu eru duglegir við að nýta þjónustu Jóns. „Ég vinn svolítið út frá hótelunum þarna, Hótel Hvolsvelli og Hótel Rangá," segir hann. Jón vílar ekki fyrir sér að bregða sér í betri fötin, ef svo ber undir. „Ég keyri brúðhjón frá Hótel Rangá að Skógafossi og Seljalandsfossi. Það er mjög vinsælt. Þá bý ég mig upp og fer í smóking - er í mínu flottasta taui."

atlifannar@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.