Erlent

Írar senda skip til Gasa

Tveir rétttrúaðir gyðingar horfa á tyrkneska skipið Mavi Marmara, sem Ísraelar réðust á á mánudag. Nordicphotos/AFP
Tveir rétttrúaðir gyðingar horfa á tyrkneska skipið Mavi Marmara, sem Ísraelar réðust á á mánudag. Nordicphotos/AFP
Stuðningsfólk Palestínumanna hefur sent írska skipið Rachel Corrie af stað með hjálpar-gögn og fólk til Gasasvæðisins, daginn eftir að ísraelski herinn réðist á skipalest til að stöðva för hennar þangað. Þá sögðust Egyptar ætla að opna um stundarsakir landamærahlið yfir á Gasasvæðið, sem Ísraelar hafa haldið í nánast algerri einangrun árum saman.

Árásin á skipalestina kostaði að minnsta kosti tíu manns lífið og vakti hörð viðbrögð stjórnvalda víða um heim. Vaxandi þrýstingur hefur verið á Ísrael að aflétta einangrun Gasasvæðisins, þar sem hálf önnur milljón Palestínumanna býr við mikla fátækt.

Michael Martin, utanríkisráðherra Írlands, krefst þess að Ísraelar leyfi írska skipinu að sigla óhindrað til Gasasvæðis. Hann krefst þess einnig að Ísraelar láti lausa alla írska ríkisborgara sem handteknir voru á mánudag.

Eftir að hafa stöðvað ferðir skipalestarinnar á mánudag handtóku Ísraelar 679 manns og færðu til lands. Einungis fimmtíu þeirra hafa þegar þegið boð Ísraela um að yfirgefa landið, en hundruð þeirra hafa neitað að sýna Ísraelum samvinnu og eru enn í fangelsi. Þrjátíu eru sagðir vera á sjúkrahúsi í Ísrael.

Ísraelar halda því fram að herinn hafi ekki gripið til vopna gegn skipverjum fyrr en þeir urðu fyrir harðvítugum árásum, þar sem beitt var bareflum, hnífum og jafnvel skotvopnum. Þessu er mótmælt af fólki, sem var um borð og segir Ísraela jafnvel hafa skotið á sofandi fólk og haldið áfram að skjóta eftir að hvítum friðarfánum var veifað.

Ísraelar segjast hafa unnið hörðum höndum að því að skoða farm skipaflotans. Mest hafi þar farið fyrir tækjabúnaði sem nóg er til af á Gasasvæðinu fyrir. Megnið af farminum hafi engu að síður verið sett í flutningabíla áleiðis til Gasasvæðisins.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman á neyðarfundi á mánudag vegna atburðanna og sendi frá sér ályktun þar sem árásin er fordæmd og þess krafist að óhlutdræg rannsókn verði gerð hið fyrsta.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×