Lífið

Keppir við vini í Eurovision

steinarr logi nesheim Steinarr Logi fær samkeppni úr óvæntri átt í Eurovision-keppninni eftir áramót. fréttablaðið/anton
steinarr logi nesheim Steinarr Logi fær samkeppni úr óvæntri átt í Eurovision-keppninni eftir áramót. fréttablaðið/anton

„Okkur finnst þetta bara fyndið og skemmtilegt,“ segir Steinarr Logi Nesheim, sem keppir á móti vinum sínum úr rokksveitinni Dead Sea Apple og Kung Fu í undankeppni Eurovision.

Steinarr keppir á lokakvöldinu á Rúv 23. janúar með lagið Every Word. Viku fyrr etja kappi þeir Albert Guðmann Jónsson úr Kung Fu og Haraldur Vignir Sveinbjörnsson úr Dead Sea Apple með sinn hvorn Eurovision-slagarann.

„Þessu var skilað inn um mitt þetta ár. Við komumst bara báðir að því ég og Halli að við sendum inn lög og komust báðir áfram,“ segir Steinarr, sem er að taka þátt í fyrsta sinn. Hann vill ekki meina að rokkararnir tveir hafi reynt að halda þátttöku sinni leyndri í hinni poppuðu Eurovision-keppni.

„Ég held að það sé enginn að reyna að fara huldu höfði. Þetta voru bara lagahöfundar að senda inn lög en við vorum kannski ekkert að reikna með því að komast áfram.“ Hann viðurkennir að hann hefði aldrei tekið þátt í Eurovision í gamla daga þegar grunge-rokkið var og hét.

„En tímarnir breytast og maður þroskast og róast.“

Lagið Every Word fjallar um gamlan skólafélaga Steinarrs sem stundaði einelti en sér mjög eftir því núna. „Ég hitti hann einhverjum áratug síðar og sá þá hvað þetta situr þungt í honum. Mér fannst þetta áhugaverður vinkill þegar gerendur átta sig á þessu einhverjum áratug síðar þegar þeir fara að rifja upp æskuna. Þetta hreyfði við mér,“ segir hann. „Þessu lagi er beint til þeirra sem eru að gera þetta í dag. Hvort sem þeir eru fullorðnir eða börn, þá hefur þetta afleiðingar. Fólk áttar sig kannski ekki á því fyrr en eftir tíu ár en þá er orðið alltof seint að gera eitthvað í málinu.“

Lagið verður á fyrstu sólóplötu Steinarrs er væntanleg í vor. „Einkennandi fyrir lögin mín í dag eru þungar pælingar í textum en í léttum búningi,“ segir hann og vonar það besta í Eurovision.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.