Innlent

Útskriftarferð til Mallorca: Er óróleg yfir hryðjuverki

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Sólrún Sigvaldadóttir segist að sjálfsögðu óróleg yfir sprengingunni sem varð í Palmanova í dag - enda er hún að fara þangað eftir viku.
Sólrún Sigvaldadóttir segist að sjálfsögðu óróleg yfir sprengingunni sem varð í Palmanova í dag - enda er hún að fara þangað eftir viku. Mynd/NMK.is
„Við erum að fara að vera í Palmanova - þar sem sprengingin var í dag," segir Sólrún Sigvaldadóttir, fráfarandi formaður nemendafélags MK. Árgangur hennar fer í útskriftarferð til eyjunnar Mallorca næsta miðvikudag, en mannskætt hryðjuverk átti sér stað í dag í sama bæ og þau koma til með að dvelja.

Sólrún segist aðspurð að sjálfsögðu vera óróleg yfir sprengjunni, þó vinkona hennar sem tekur þátt í skipulagningu ferðarinnar segist ekkert smeyk. Samgöngur til og frá eyjunni hafi verið stöðvaðar og málið verði áreiðanlega leyst áður en hópurinn kemur út.

Þær munu tala við ferðaskrifstofuna sína á morgun og fá mat hennar á stöðunni.

„Ég hugsaði hvort það væri hægt að tala við ferðaskrifstofuna og reyna að fá annað hótel eða annan bæ. Við getum athugað það. En það er náttúrulega svo stutt í þetta," segir Sólrún, sem telur aðspurð þrátt fyrir allt líklegast að þau muni fara í ferðina og reyna að skemmta sér.

Hópurinn verður á eyjunni í tvær vikur.


Tengdar fréttir

Mannskæð bílsprengja á sumardvalareyjunni Mallorca

Tveir lögreglumenn létu lífið þegar bíll sprakk á spænsku sumarleyfiseyjunni Mallorca í dag. Í kjölfar sprengjunnar lokuðu yfirvöld á Mallorka öllum samgönguleiðum til og frá eyjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×