Innlent

Efins um rannsókn Seðlabanka

Framkvæmdastjóri Creditinfo óttast að rannsókn Seðlabanka á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja taki lítið mið af kröfum sem fólk lendir fyrst í vanskilum með, svo sem fasteignagjöldum, hita og rafmagni, bifreiðatryggingum og meðlagi.
Fréttablaðið/stefán
Framkvæmdastjóri Creditinfo óttast að rannsókn Seðlabanka á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja taki lítið mið af kröfum sem fólk lendir fyrst í vanskilum með, svo sem fasteignagjöldum, hita og rafmagni, bifreiðatryggingum og meðlagi. Fréttablaðið/stefán

„Ég ætla strax á morgun [í dag] að hafa samband við Steingrím J. Sigfússon og fara yfir þetta með honum. Það er ekkert leyndarmál að ein af ástæðum þess hversu veikt við stöndum núna er þetta þekkingarleysi á vanskilum heimila, sem er í stofnunum eins og Seðlabankanum. Þar eru ekki þau tæki og tól sem þarf til að gera svona, hvað þá á tveimur mánuðum," segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, sem heldur meðal annars utan um vanskilaskrá.

Rakel vísar til fréttar blaðsins um viðamikla rannsókn Seðlabankans, sem miðar að því að taka saman gögn um fjárhag heimila og fyrirtækja; eignir, skuldir, tekjur og fleira. Fyrstu niðurstöður áttu að liggja fyrir um miðjan febrúar en hafa tafist um nokkrar vikur.

Bankinn ætlar sér um of, segir Rakel. „Við höfum grúskað í þessu í ellefu ár, en í svona verkefni myndum við samt kalla til færustu erlendu sérfræðinga sem völ er á og finna upplýsingarnar með einfaldari hætti."

Hún hefur jafnframt efasemdir um dulkóðun gagnanna hjá Decode. Svo mikið magn af upplýsingum bjóði upp á sama magn af villum, þegar smíðuð eru reiknilíkön.

Spurður hvort Seðlabankinn hafi íhugað að leita til þeirra gagnabanka sem nú þegar eru til reiðu, segir Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans: „Það hafa allir slíkir kostir verið skoðaðir en þetta var niðurstaðan, að það væri fljótlegast og ódýrast." Kostnaðurinn sé þó óviss enn.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×