Innlent

Ómerktur lögreglubíll myndaði tugi hraðabrota

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarna daga staðið fyrir sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í umdæminu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarna daga staðið fyrir sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í umdæminu.

Ómerktur lögreglubíll útbúinn hraðamyndavél fylgdist með aksturslagi ökumanna á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn föstudag og þriðjudag að því er fram kemur á vef lögreglunnar.

Brot 46 ökumanna voru mynduð á Háteigsvegi í Reykjavík en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í vesturátt, að Vatnsholti. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 140 ökutæki þessa akstursleið og því óku 33% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 42 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Fjórir óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 52.

Brot 14 ökumanna voru mynduð í Lönguhlíð í Reykjavík en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í suðurátt, að Drápuhlíð. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 159 ökutæki þessa akstursleið og því óku 9% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 64 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 75.

Brot 44 ökumanna voru mynduð á Vífilsstaðavegi í Garðabæ en fylgst var með ökutækjum sem var ekið í austurátt, við Barnaskóla Hjallastefnunnar. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fór 161 ökutæki þessa akstursleið og því óku 27% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 65 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Sjö óku á 70 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 80.

Í Lönguhlíð og á Háteigsvegi var hlutfall hraðaaksturs svipað og í mælingum sem fram fóru fyrir ári síðan á sömu stöðum.

Mælingarnar eru hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í umdæminu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×