Innlent

Tap lífeyrissjóða meira en áður hefur verið greint frá

Tap lífeyrissjóða landsins verður tug milljörðum króna meira en áður hefur verið greint frá. Eignir lífeyrissjóða í skuldabréfum fyrirtækja, sem sum hver eru í greiðslustöðvun, hafa ekki verið afskrifaðar.

Lífeyris - og peningamarkaðssjóðir héldu atvinnulífinu gangandi með kaupum á skuldabréfum sem fyrirtæki gáfu út. Þó að í sumum tilvikum séu skuldabréf með tryggum veðum þá er algengara að skuldabréfin hafi verið með veði í sjóðsstreymi fyrirtækjanna. Það þýðir að ef fyrirtækin fara í þrot eru engin veð fyrir fjárfestingunni. Lífeyrissjóðirnir munu þá þurfa að gera almenna kröfu í þrotabúið og koma því á eftir þeim fyrirtækjum sem eiga kröfur með veðum.

Til að gefa innsýn í hvaða upphæðir um ræðir skulum við taka dæmi af tveimur fyrirtækjum.

Fjögur skuldabréf í Samson eignarhaldsfélagi, sem nú er í greiðslustöðvun, eru virk. Hér má sjá hvenær skuldabréfin renna út en heildarupphæð þeirra eru 22 milljarðar. Landic Property, þar sem Stoðir eru stærsti hluthafinn með um 40% hlut, er einnig með fjögur virk skuldabréf upp á samtals 24 og hálfan milljarð. Þar af rennur skuldabréf upp á rúma 7 milljarða út þann 6. Mars næstkomandi. Stoðir, stærsti hluthafi Landic, er nú í greiðslustöðvun.

Ekki er hægt að nálgast upplýsingar um hversu stóran hlut Lífeyrissjóðirnir keyptu af þessum skuldabréfum en gegnumgangandi hafa skuldabréf í fyrirtækjum verið í kringum 10% af fjárfestingum lífeyrissjóða. Þessar fjárfestingar hafa verið afskrifaðar í séreignasjóðunum en ekki samtryggingarsjóðunum. Tölur um tap sjóðanna eftir hrunið hafa því verið villandi. Landssamtök Lífeyrissjóða fékk tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu að hlutast til um að uppgjör skuldabréfa væri samræmt hjá lífeyrissjóðum. Samtökin funduðu með stærstu sjóðunum og samkvæmt heimildum fréttastofu munu sjóðirnir ekki verða við tilmælum Fjármálaeftirlitsins nema með óformlegum hætti.

Heimildir fréttastofu herma að unnið sé að því að meta afskriftarþörf lífeyrissjóðanna og muni þeirri vinnu verða lokið í byrjun febrúar. Þá mun koma í ljós hvort og hve mikið lífeyrisréttindi sjóðsfélaga skerðast.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×