Erlent

Ég flýg ekki yfir íbúðasvæði

Óli Tynes skrifar

Rannsóknarnefnd flugslysa í Bandaríkjunum segir að annar hreyfill vélarinnar sem nauðlenti á Hudson fljóti sé enn á sínum stað, en í fyrstu var talið að þeir hefðu báðir brotnað af í lendingunni.

Chesley Sullenberger, flugstjóri vélarinnar sagði við skýrslutöku vegna atburðarins að bæði hann sjálfur og aðstoðarflugmaður hans hefðu séð mikið fuglager rétt áður en þeir rákust á það. Þeir hefðu svo fundið lykt af brennandi fuglum um leið og hreyflarnir stöðvuðust.

Það er ekki óalgengt að fuglar lendi í hreyflum flugvéla. Það er yfirleitt hættulaust. Hreyflarnir éta fuglana og skyrpa þeim afturúr sér án þess að verða fyrir tjóni.

Talið er að í þessu tilfelli hafi hinsvegar verið um að ræða kanadagæsir sem eru stórir fuglar. Karlfuglar geta vegið yfir sex kíló. Ef hreyflar fá marga slíka í einu getur það haft alvarlegar afleiðingar, eins og þetta tilfelli sýnir.

Talsmaður bandaríska loftferðaeftirlitsins sagði frá því að eftir að flugmennirnir höfðu lýst yfir neyðarástandi hafi Sullenberger verið spurður um hvort hann vildi snúa aftur til La Guardia flugvallarins.

Sullenberger vildi hinsvegar ekki fljúga yfir íbúðahverfi. Það væri of mikil hætta á stórslysi ef þeir næðu ekki inn á völlinn. „Við förum í fljótið" sagði hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×