Erlent

Sextíu þúsund milljarðar á ári

Ráðstefnugestir í Genf. Um 1.500 manns sitja nú á fundum í Genf til að ræða loftslagsmál. nordicphotos/AFP
Ráðstefnugestir í Genf. Um 1.500 manns sitja nú á fundum í Genf til að ræða loftslagsmál. nordicphotos/AFP

Auðugustu ríki heims þyrftu að afhenda fátækari hluta heimsins sextíu þúsund milljarða króna árlega til þess að fátæku ríkin gætu brugðist við loftslagsbreytingum.

Þetta segir Richard Kozul-Wright, sem hefur tekið saman 207 blaðsíðna skýrslu fyrir Sameinuðu þjóðirnar um málið. Skýrslan var kynnt í Genf í gær, þar sem nú stendur yfir ráðstefna um viðbrögð við hlýnun jarðar.

Ef þróunarríki halda einfaldlega áfram á sömu braut og iðnríkin hafa farið, þá mun það hafa skelfileg áhrif á loftslag jarðar, segir í skýrslunni.

Á hinn bóginn er hægt að hjálpa þeim með fjármagn til þess að þau skipti yfir í hreina orkugjafa sem losa ekki gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið.

„Það er ekki hægt að láta þróunarlöndin ein um þetta,“ segir Kozul-Wright. Upphæðin, sem hann telur nauðsynlega, nemur um það bil einu prósenti af heildar­framleiðslu jarðarbúa árlega. Þetta myndi gera fátækari löndum kleift að njóta hagvaxtar án þess að spilla andrúmsloftinu.

Aðrir fræðimenn hafa sagt ámóta upphæðir nauðsynlegar, en ekki fyrr en eftir mörg ár. Kozul-Wright segir hins vegar nauðsynlegt að byrja strax á allra næstu árum að útvega þetta fé.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×