Innlent

Fjöldi notenda yfir 350 milljónum

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri bandaríska samskiptavefsins Facebook, sést hér á fundi í Davos í Sviss snemma á þessu ári. Fréttablaðið/AP
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri bandaríska samskiptavefsins Facebook, sést hér á fundi í Davos í Sviss snemma á þessu ári. Fréttablaðið/AP
„Á þessu ári hefur gengið vel að gera heiminn bæði opnari og tengdari. Með ykkar hjálp hafa nú yfir 350 milljónir manna tengst Facebook,“ segir Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, í opnu bréfi til notenda sem birt var á vefnum í gær.

Fram kemur að með auknum fjölda notenda hafi eðli vefsins breyst og tími sé kominn á breytingar á uppbyggingu hans. Samskiptavefurinn er fimm ára gamall.

Hann segir að aðgangsstýringar þær sem Facebook-vefurinn noti nú snúist um svokölluð „tengslanet“ (e. networks) sem séu umgjörð fyrir vinnustaði, skóla eða jafnvel heilu þjóðríkin. „Þetta gafst vel þegar flestir notendur Facebook voru í hópi háskólanema,“ segir Zuckerberg, en bætir um leið við að þegar komin séu milljónatengslanet sé virkni þeirra til aðgangsstýringar takmörkuð.

Zuckerberg upplýsir að til standi að fjarlægja svæðisbundin tengslanet og koma á einfaldari leiðum þar sem notendur ákveði hvaða efni hver tengslahópur þeirra fái að sjá, vinir, vinir vina eða allir. Þá fái notendur betri tæki til að stýra því hverjir fái augum litið stakar færslur sem þeir setji á netið.

Hann varar notendur við því að á næstu vikum kunni þeir að þurfa að uppfæra stillingar fyrir aðgangsstýringu síðna sinna.- óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×