Innlent

Ítreka beiðni um Icesave skjöl

Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir.
Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir.
Þingmenn Hreyfingarinnar ítreka fyrri beiðni þeirra um að trúnaði verði aflétt af skjölum vegna Icesave málsins og fara auk þess fram á málefnaleg rök verði færð fyrir leyndinni.

Birgitta Jónsdóttir óskaði í síðustu viku eftir því við fjármálaráðherra að trúnaði verði aflétt af gögnum sem varða Icesave málið. Ekkert réttlæti að þau séu ekki aðgengileg almenningi. „Um er að ræða gögn sem hafa verið aðgengileg þingmönnum til aflestar í svokallaðri „leynimöppu" á nefndarsviði Alþingis," segir í tilkynningu frá þingmönnunum.

Þar sem engin svör bárust við erindinu var það ítrekað í gær. Samdægurs, á fundi utanríkismálanefndar, óskaði Birgitta eftir því við Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóra utanríkismálaráðuneytisins, að ráðuneytinu yrði falið að fara yfir skjölin á listanum, lið fyrir lið, og færa rök fyrir því hvers vegna almenningi sé meinaður aðgangur að tilteknu skjali.

„Birgitta áréttaði þessa beiðni í ræðustól Alþingis við utanríkisráðherra í dag og á ekki von á öðru en að ráðuneytið bregðist við beiðninni um þessar upplýsingar áður en Icesave-málið verður leitt til lykta," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×