Innlent

Sakaður um að svíkja út háar fjárhæðir

Maðurinn er ákærður fyrir skjalafals sem miðaði að því að svíkja út hundruð þúsunda.
Maðurinn er ákærður fyrir skjalafals sem miðaði að því að svíkja út hundruð þúsunda.

Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir stórfellt og ítrekað skjalafals, svo og þjófnaði og fíkniefnabrot.

Maðurinn framvísaði tékka að upphæð rúmlega 240 þúsund í Glitni. Hann vissi að tékkinn var falsaður og falsaði svo framsals­áritunina.

Næst framvísaði maðurinn tveimur fölsuðum tékkum upp á tæpar 700 þúsund krónur í KB banka.

Þá bar hann niður í versluninni BT í Skeifunni. Þar sveik hann út heimabíókerfi ásamt fylgihlutum fyrir rúm 320 þúsund.

Í desember 2007 blekkti maðurinn svo starfsmenn Kaupþings banka símleiðis til að millifæra heimildarlaust tæp sautján þúsund af tékkareikningi annars manns yfir á sinn reikning. Hann hafði komist yfir lykilnúmer og tókst að nota það í þessum tilgangi.

Skömmu áður hafði hann blekkt starfsmenn í tveimur útibúum Landsbankans til að taka út 104 þúsund af tveimur bankareikningum, sem maðurinn sló eign sinni á.

Auk þessa var maðurinn ákærður fyrir ítrekuð fíkniefnabrot, bílþjófnað og innbrot þar sem hann stal fartölvum, myndavél og tveimur fjarstýringum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×