Thom Yorke, söngvari Radiohead, mætti óvænt á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir skömmu. Umhverfismál hafa verið Yorke afar hugleikin um árin og hefur hann að undanförnu bloggað óspart um ráðstefnuna á heimasíðu Radiohead. Svo virðist sem honum hafi leiðst þófið því skyndilega birtist hann í Kaupmannahöfn með blaðamannapassa um hálsinn til að fylgjast með framvindu mála með eigin augum. Hann segir gagnsæi hafi vantað á ráðstefnuna og að hinn almenni borgari botni hvorki upp né niður í þróun mála.
