Innlent

Einstakt sýningarsvæði byggt

Gamli báturinn hans Binna í Gröf, aflakóngsins frá Vestmannaeyjum, stendur í slippnum og bíður þess að verða gerður upp.
fréttablaðið/gva
Gamli báturinn hans Binna í Gröf, aflakóngsins frá Vestmannaeyjum, stendur í slippnum og bíður þess að verða gerður upp. fréttablaðið/gva
Faxaflóahafnir eru að byggja upp aðstöðu þar sem Daníelsslippurinn var starfræktur og mun gagnast Víkinni – sjóminjasafninu í Reykjavík. Byggðir verða upp pallar sem tengjast útisýningaraðstöðu safnsins og göngubrú sem tengist safninu beint.

Eiríkur P. Jörundsson, forstöðumaður safnsins, segir að með framkvæmdum Faxaflóahafna sé að verða til einstakt sýningarsvæði. Hluti svæðisins er dráttarbraut sem nýtist safninu sem minnisvarði um þá miklu starfsemi sem var á slippsvæðinu um áratuga skeið. Safnið er í einstakri stöðu. Varðskipið Óðinn er hluti af safnkosti þess auk dráttarbátsins Magna.

„Við vorum svo heppin að Óðinn kom beint hingað úr þjónustu Landhelgisgæslunnar og þess vegna getum við boðið fólki að sjá skipið eins og því var haldið við á meðan það var starfrækt.“

Blikur eru þó á lofti því fimm milljóna króna fjárveiting til safnsins vegna Óðins var felld niður á fjárlögum. Sú upphæð er í raun rekstrarkostnaður við að halda hita og rafmagni á skipinu en Eiríkur útilokar ekki að fé fáist að lokum. „Það er mjög sjaldgæft að fá svona stórt skip á safn í jafn góðu ástandi. Það væri synd og skömm að glutra því niður.“

Safnið fagnaði fimm ára afmæli sínu á dögunum. Á þessu ári hafa 25 þúsund sótt safnið heim.- shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×