Innlent

Helmingur hyggst draga úr neyslu vegna skattabreytinga

Fimmtíu prósent neytenda ætla að draga úr neyslu á dagvörum í ljósi breytinga ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu, ef marka má niðurstöður nýlegrar könnunar. Fólk vill frekar skera niður í stjórnsýslunni, heldur en í menntakerfinu.

Það var Capacent sem vann könnunina fyrir Félag íslenskra stórkaupmanna og VR en niðurstöður hennar voru kynntar á Grand Hótel í morgun. Tæplega 800 manns svöruðu könnuninni sem fjallaði um viðhorf almennings til skattkerfisbreytinga og áhrif þeirra á neyslu fólks.

Í könnuninni var meðal annars var spurt um nýlegar breytingar ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu. Tæplega 30% þeirra sem svöruðu eru mjög óánægðir með þær hugmyndir en rúmlega 15% sögðust frekar ánægðir.

„Það sem er athyglisvert við þessa könnun er að 50% neytenda segjast ætla að draga mikið eða nokkuð úr neyslu á dagvöru. Síðan 80% þegar aðrar vörur en dagvörur eru skoðaðar," segir Almar Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Félags íslenskra stórkaupmanna.

Almennt séð var fólk á því að niðurskurður ríkisútgjalda væri besta leiðin til þess að ná fram jafnvægi í rekstri ríkisins á næstur þremur árum. Og þegar fólk var spurt að því hvar væri best að skera niður, var stjórnsýslan ofarlega í huga.

En tæp 57% nefndu stjórnsýslu í því samhengi og rúm 37% nefndu launakostnað ríkisins. Menningarmál, framkvæmdir og landbúnaðarmál voru fólki einnig ofarlega í huga, en fólk vill síður skera niður í heilbrigðiskerfinu, utanríkismálum og menntakerfinu.

Almar vonar að könnunin efli almenna umræðu í landinu um skattamál og hann segir tímasetninguna heldur ekki tilviljun, þar sem meðferð þingsins á þessum málum sé að ná hámarki.

„Við teljum það skyldu þingmanna að hlusta eftir skoðunum almennings á þessum málum. Það eru klárlega mjög áhugaverð sjónarmið sem eru að koma í gegnum könnunina sem ættu að þýða breytingar á þeim áformum sem núna liggja fyrir þinginu," segir Almar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×