Erlent

Fyrrverandi samherjar deila

Sarkozy og de Villepin á franska þinginu árið 2006 þegar Sarkozy var innanríkisráðherra en de Villepin forsætisráðherra. fréttablaðið/AP
Sarkozy og de Villepin á franska þinginu árið 2006 þegar Sarkozy var innanríkisráðherra en de Villepin forsætisráðherra. fréttablaðið/AP
Í Frakklandi hefjast í dag réttarhöld í máli Nicolas Sarkozys Frakklandsforseta gegn Dominique de Villepin, fyrrverandi forsætisráðherra.

Sarkozy sakar de Villepin um að hafa breitt út gróusögur um sig til að draga úr möguleikum sínum til að sigra de Villepin í forsetakosningum árið 2007.

Upphaf málsins má rekja aftur til 2004, þegar bæði Sarkozy og de Villepin höfðu sýnt áhuga á að taka við af Jacques Chirac forseta. Sarkozy var þá innanríkisráðherra í ríkisstjórn de Villepins, en þeir eru flokksbræður í UMP, stærsta flokki franskra hægrimanna.

Nafn Sarkozys kom fram á lista yfir valdamikla stjórnmála- og viðskiptamenn, sem talið var að hefðu meðal annars þegið mútur fyrir að hafa selt herskip til Taív­ans árið 1991.

De Villepin ákvað að láta rannsaka málið, en skömmu síðar kom í ljós að listinn var falsaður. Dómsmálið snýst um það hvenær de Villepin komst að því að listinn var falsaður.

De Villepin segist í einu og öllu hafa farið rétt að og sakar Sarkozy um að vera með málið á heilanum.

Verði de Villepin fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi og sekt upp á 375 þúsund evrur. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×