Innlent

Umferðareftirliti lítið sinnt vegna fámennis hjá lögreglu

vidir@frettabladid.is skrifar
Arinbjörn Snorrason
Arinbjörn Snorrason
„Ég furða mig á orðum dómsmálaráðherra og þetta eru mikil vonbrigði. Við erum búin að biðla til ríkisstjórnarinnar í langan tíma um að koma til móts við okkur með því að draga niðurskurðinn til baka," segir Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, um orð Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra í Fréttablaðinu í gær.

Sagði Ragna að ekki kæmi til greina að sækja eftir aukafjárveitingu fyrir lögregluna. Skera á niður um 57,1 milljón króna og eru lögreglumenn ósáttir við niðurskurðinn.

„Glæpaheimurinn verður harðari á meðan verið er að skera niður. Hegningarlagabrotum fjölgar mikið og við erum færri til að vinna frumkvæðiseftirlit svo því er mjög lítið sinnt. Þetta er nánast að verða útkallslögregla," segir Arinbjörn.

Hegningarlagabrotum hefur fjölgað mikið á þessu ári. Til dæmis hefur innbrotum fjölgað um 78 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við árið í fyrra. Upplýstum brotum vegna frumkvæðiseftirlits lögreglu, eins og umferðarlagabrotum, fækkar hins vegar töluvert.

Arinbjörn segir afskipti, til dæmis af ölvunarakstri, töluvert færri nú en áður þar sem lögreglan hafi ekki bolmagn til þess að sinna þeirri skyldu. Síðan eru laun lögreglunnar það lág nú þegar, að mati Arinbjarnar, að yngra fólk úr stéttinni leitar annað.

„Við erum að heyra það núna að launin séu það lág hjá þeim sem koma ný inn í þetta að þau hugi að námi í haust og það sé alveg eins gott að vera á námslánum," segir Arinbjörn.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir að hugsa þurfi skipan lögreglumála á nýtt. Lagði hún til á fundi nefndarinnar í gær að dómsmálaráðherra og fulltrúar frá lögreglunni yrðu fengnir á fund á næstunni.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að það þurfi að efla lögregluna og hugsa skipan hennar upp á nýtt," segir Steinunn en hún sagði á þingi í gær að taka þyrfti þessi mál alvarlega. Atli Gíslason, þingmaður VG, og Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem báðir eru fulltrúar í allsherjarnefnd, tóku undir með Steinunni Valdísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×