Innlent

Hent fram af svölum í Vogunum

Fimm líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á suðurnesjum í nótt og var talsverður erill. Ein þeirra var í Vogunum þar sem menn gengu í skrokk á íbúa í blokk, sem endaði með því að manninum var hent fram af svölum. Maðurinn kenndi til í baki og fótum og var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Árásaraðilinn var handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglunnar.

Þetta kemur fram í tilynningu frá lögreglunni á suðurnesjum. Þar segir ennfremur að ungur maður hafi verið skallaður á Hafnargötunni í Reykjanesbæ um klukkan 07:00 í morgun og brotnaði í honum tönn við árásina.

Þá var stúlka lamin með glasi í andlitið á skemmtistað í Reykjanesbæ. Stúlkan var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og kom í ljós að hún var nefbrotin og með litla skurði á nefi. Gerandinn var handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglunnar og bíður yfirheyrslu.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í Grindavík þar sem maður var laminn í andlitið með steini. Lögreglan kom hinum slasaða á sjúkrahús til skoðunar og gerandinn var færður í fangahús. Þá var maður sleginn undir morgun á skemmtistað í Reykjanesbæ. Hann leitaði sér aðhlynningar á sjúkrahús og er talinn vera nefbrotinn.

Kl. 02:36 voru sprengdir tveir hraðbankar hjá Sparisjónum í Keflavík við Tjarnargötu. Þar hafði ungur maður komið kínverjum fyrir undir gleri á hraðbönkunum og sprengt þá. Anddyrið varð fullt af reyk og var slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kallað til og reykræsti. Miklar skemmdir urður á hraðbönkunum að sögn starfsmanns Sparisjóðsins, sem kom á vettvang. Uppátækið náðist á eftirlitmyndavélar Sparisjóðsins og hafði lögreglan uppi á gerandanum skömmu síðar, sem gistir fangageymslu lögreglunnar og bíður yfirheyrslu.

Fangageymslur lögreglunnar voru yfirfullar í nótt og frameftir morgni. Einn ökumaður var tekinn grunaður um ölvun við akstur undir morgun í Reykjanesbæ.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×