Innlent

Yngri dóttir Sophiu Hansen hugsanlega á leiðinni til Íslands

Sophia Hansen á leiðinni út úr dómshúsi fyrr á árinu.
Sophia Hansen á leiðinni út úr dómshúsi fyrr á árinu.

Yngri dóttir Sophiu Hansen, Rúna, verður kölluð til vitnis í aðalmeðferð í sakamáli gegn Sophiu sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Sophia er ákærð fyrir að hafa borið Sigurð Pétur Harðarson, fyrrum útvarpsmann, röngum sakargiftum. Þá sagði hún við yfirheyrslur hjá lögreglunni árið 2007 að hana grunaði Sigurð Pétur um að hafa falsað undirskrift hennar á þrjú viðskiptabréf. Samtals var andvirði þeirra rétt rúmar 42 milljónir króna. Sjálf neitar Sophia sök.

Samkvæmt heimildum Vísis var Rúna, sem er búsett í Tyrklandi, vottur á viðskiptabréfunum og því þarf að kalla hana til vitnis. Þá þarf einnig að kalla tvo sænska rithandarsérfræðinga til vitnis. Það var niðurstaða þeirra sem leiddi í ljós að Sigurður Pétur hefði ekki falsað undirskrift Sophiu.

Athygli vekur að kalla þurfi Rúnu til vitnis. Komi hún til Íslands verður það í fyrsta skiptið síðan faðir þeirra, Halim Al, fór með þær af landi brott snemma á tíunda áratugnum. Í kjölfarið fór Sophia í kostnaðarsama og landsfræga baráttu um að endurheimta dætur sínar Rúnu og Dagbjörtu. Þær eru búsettar í Tyrklandi.

Það er ríkissaksóknari sem gefur út ákæru vegna málsins en fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sækir það í héraðsdómi. Að bera mann röngum sökum er alvarlegt brot en viðurlög eru allt að sextán ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×