Innlent

Býður Helgu Sigrúnu velkomna í kjördæmið

Siv Friðleifsdóttir er oddviti framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi.
Siv Friðleifsdóttir er oddviti framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, er hvergi bangin og metur stöðu sína í kjördæminu góða. Hún býður Helgu Sigrúnu Harðardóttur, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, velkomna í kjördæmið.

Helga Sigrún tilkynnti í dag að hún hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti flokksins í Suðvesturkjördæmi. Hún tók sæti á þingi í nóvember þegar að Bjarni Harðarson sagði af sér þingmennsku.

,,Mér líst vel á það að fólk gefi kost sér og býð hana velkomna til starfa í kjördæminu," segir Siv sem hefur verið oddviti framsóknarmanna í kjördæminu undanfarin sex ár.

Í Fréttablaðinu er greint frá því að hópur framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi hafi undanfarið leitað að frambjóðanda til að bjóða sig fram gegn Siv. Aðspurð segist hún meta stöðuna sína í kjördæminu sterka.

,,Það er einmitt mikið talað um það núna að það verði að hafa reynslu í þingflokki framsóknarmanna en það er ljóst að við erum einungis þrjú sem vorum kjörin síðast sem gefun kost á okkur aftur," segir Siv. Auk hennar eru Höskuldur Þórhallsson og Birkir Jón Jónsson þau einu sem voru kjörin á þing vorið 2007 sem sækjast eftir endurkjöri.


Tengdar fréttir

Helga Sigrún hjólar í Siv

Helga Sigrún Harðardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti flokksins í Suðvesturkjördæmi. Siv Friðleifsdóttir situr í því sæti og sækist eftir endurkjöri. Prófkjör um efstu sæti á framboðslista framsóknarmanna í kjördæminu fer fram laugardaginn 7. mars. Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, sækist einnig eftir fyrsta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×