Skoðun

Fjárframlög til lista - fjárfesting í framtíð

Haukur F. Hannesson skrifar

Í Svíþjóð var brugðist við kreppu með auknum framlögum til mennta- og menningarmála. Hér er fjallað um hvað gerðist í borginni Gävle á erfiðum tímum í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar.

Það reið bankakreppa yfir Svíþjóð árið 1992 sem hafði víðtæk áhrif á sænskt þjóðfélag. Kjörnir fulltrúar landsins urðu að setja sig í kreppustellingar og gera grundvallarbreytingar á ýmsum þáttum þjóðlífsins, sérstaklega þar sem hið opinbera lagði til fé. Mikill niðurskurður varð í ríkisfjármálum og á nokkrum árum voru útgjöld hins opinbera skorin niður um tugi prósenta. Þetta hafði líka áhrif á listir og menningarstarfsemi.

Ég gegndi undir lok þessa niðurskurðartíma starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gävle. Gävle er 90.000 manna borg u.þ.b. 200 km fyrir norðan Stokkhólm. Atvinnulíf borgarinnar hefur lengi einkennst af starfsemi stórra fyrirtækja þar sem mikill hluti borgarbúa hefur haft atvinnu sína. Fáir sóttu æðri menntun, þar sem auðvelt var að feta í fótspor kynslóðarinnar á undan og byrja afla tekna í verksmiðjunni á unga aldri.

Bygging tónlistarhúss

Gävle á þó sína eigin sinfóníuhljómsveit sem var stofnsett árin 1911. Þar var ekkert tónlistarhús og hélt hljómsveitin tónleika sína í leikhúsi borgarinnar, gamalli fallegri byggingu með afleitum hljómburði fyrir tónlist.

Þegar afleiðingar bankkreppunnar fór að gera vart við sig á tíunda áratug síðustu aldar fóru menn að ræða um hvernig hægt væri að bregðast við. Eitt var talið nauðsynlegt: Þrátt fyrir að mikill niðurskurður væri á mörgum sviðum þjóðlífsins skyldu fjárframlög til menntamála ekki skorin niður og niðurskurði til menningarmála haldið í skefjum.

Framlög til Háskólans í Gävle voru aukin mikið og fjölgaði nemendum úr tvö þúsund í sex þúsund.. Sérstaklega var lögð áhersla á að ná til þeirra sem hætta var á að yrðu atvinnulausir þegar stórar verksmiður og vinnustaðir í borginni voru lagðir niður eða starfsemin flutt til útlanda. Með þessu tókst að auka hlut æðri menntunar og gera hana aðgengilegri. Áhrif þessara aðgerða eru enn að koma fram í meiri fjölbreytni í atvinnulífi borgarinnar.

Hitt sem gert var í Gävle var að þar var byggt tónlistarhús. Miklar deilur stóðu um húsið og héldu margir því fram í fjölmiðlum að hér væri verið að leggja peninga í dekurverkefni stjórnmálamanna, ónauðsynleg útgjöld sem betra væri að nota til félagslegrar þjónustu. Sveitarstjórnarmenn héldu þó ótrauðir áfram með bygginguna og töldu hana vera nauðsynlega fjárfestingu í framtíð borgarinnar.

Það borgaði sig

Það kom líka í ljós að sveitarstjórnarmennirnir höfðu rétt fyrir sér. Skyndilega komst þessi iðnaðarborg, sem einu sinni var valin leiðinlegasta borg Svíþjóðar af einu dagblaðanna, á kortið fyrir alvöru. Stjórnmálaflokkar landsins sóttust eftir því að halda landsfundi sína í tónlistarhúsinu og Gävle fékk mikla eftirtekt um allt land. Sinfóníuhljómsveit Gävle flutti inn í húsið og var upp frá því önnur hljómsveit. Skilyrði sköpuðust fyrir listrænum vexti hljómsveitarinnar. Áheyrendum á tónleika hljómsveitarinnar fjölgaði um helming og hljómsveitinni var boðið í tónleikaferð til Hollands þar sem hún vann mikinn listsigur með glæsilegum tónleikum í tónleikahöllinni Concertgebow í Amsterdam.

Engum hefði dottið í hug nokkrum árum fyrr að bjóða þessari héraðshljómsveit frá Svíþjóð í slíka ferð. Nú voru afleiðingar hinnar nýju aðstöðu listamannanna, að koma í ljós og það var betri hljómsveit sem kom heim en sú sem fór. Tónleikarnir voru hljóðritaðir og gefnir úr á geisladiski, sem varð til að hljómsveitin náði samningum við hljómplötufyrirtækið Naxos i Hong Kong.

Allt þetta gerðist undir áhrifum þeirrar kreppu sem leiddi til mikils niðurskurðar í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Bygging tónlistarhússins í Gävle hafði góð áhrif á framtíð borgarinnar á erfiðum tímum. Húsið lagði grundvöll að nýsköpun og opnaði fyrir nýja möguleika. Það er vonandi að íslensk stjórnvöld hafi það á aðgerðaáætlun sinni að byggingu tónlistarhússins okkar ljúki sem allra fyrst, til gagns fyrir alla landsmenn.

Listir og menning eru ekki bara útgjaldaliður á fjárlögum ríkis og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga heldur líka fjárfesting í framtíð þjóðar. Dæmið frá Svíþjóð hér að ofan sýnir að slík fjárfesting margborgar sig.

Höfundur er tónlistarmaður og listrekstrarfræðingur.






Skoðun

Sjá meira


×