Erlent

Obama boðar stríðslok innan þriggja ára

Fjöldi hermanna hefur fallið í stríðinu og hafa síðustu mánuði verið einkar mannskæðir. Fréttablaðið/ap
Fjöldi hermanna hefur fallið í stríðinu og hafa síðustu mánuði verið einkar mannskæðir. Fréttablaðið/ap
Barack Obama Bandaríkjaforseti stefnir að því að stríðinu í Afganistan verði lokið eftir þrjú ár. Fjölgun bandarískra hermanna í landinu um 30 til 35 þúsund á næstu sex mánuðum er liður í þeirri áætlun að gera endanlega út af við Al-Kaída-samtökin á skömmum tíma og koma á stöðugleika í landinu.

Forsetinn kynnti þjóð sinni í gærkvöldi fyrirætlanir sínar varðandi stríðið í ræðu sem sjónvarpað var á miðnætti að íslenskum tíma. Ræðan hafði ekki verið flutt þegar Fréttablaðið fór í prentun, en ýmsu af innihaldi hennar hafði verið lekið í fjölmiðla af embættismönnum úr Hvíta húsinu.

Meðal þess var að til stæði að hefja brottflutning herliðsins frá Afganistan í júlí árið 2011. Engin tiltekin dagsetning hefði hins vegar verið ákveðin fyrir stríðslok, þótt því eigi að vera lokið eftir þrjú ár.

Ákvörðunin hefur komið nokkuð á óvart. Annars vegar vegna þess hversu djarft það er af forsetanum að tilkynna um svo mikla fjölgun hermanna níu dögum áður en hann tekur við friðarverðlaunum Nóbels, og hins vegar vegna þess að talsmenn forsetans hafa til þessa sagt að minnst 12 til 18 mánuði taki að senda þennan liðsauka út. Nú skyndilega sé hins vegar stefnt að því að gera það á sex mánuðum.

Þetta er í annað sinn frá valdatöku Obama sem hermönnum í Afganistan er fjölgað, og heyja nú um 70 þúsund bandarískir hermenn stríðið sem tekið hefur átta ár.

Fullyrt var í gær að Obama myndi í ræðunni einnig óska eftir auknum liðstyrk frá öðrum þjóðum Atlantshafsbandalagsins, alls fimm til tíu þúsund hermönnum, en 30 þúsund hermenn annarra þjóða eru þar nú þegar.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í gær að Þjóðverjar væru ekki tilbúnir til að auka við 4.000 manna herafla sinn í landinu að svo stöddu.

Meðal þess sem Obama leggur mesta áherslu á í áætlun sinni er að fjölga afgönskum hermönnum og lögreglumönnum í landinu og flýta þjálfun þeirra. Þeim er ætlað að halda uppi lögum og reglum í landinu eftir að erlendir herir hverfa á brott. Nú er stefnt að því að 134 þúsund Afganar verði í herliði landsins og um 97 þúsund í lögregluliðinu, þótt þær tölur kunni að hækka.

Yfirmaður í afganska varnarmálaráðuneytinu sagði í gær að það takmark væri þó ekki nóg. Heraflinn þyrfti að vera minnst 240 þúsund manns.

stigur@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×