Erlent

Renzaho fer í lífstíðarfangelsi

Tharcisse Renzaho Sannað þótti að hann hafi lagt á ráðin og hvatt til morðanna 1994.Nordicphotos/AFP
Tharcisse Renzaho Sannað þótti að hann hafi lagt á ráðin og hvatt til morðanna 1994.Nordicphotos/AFP

Stríðsglæpadómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að Tharcisse Renzaho, 65 ára fyrrverandi ríkisstjóra í Kigali, höfuðborg Rúanda, hafi verið einn helsti forsprakki fjöldamorðanna þar árið 1994.

Fyrir glæpi sína var Renzaho dæmdur í ævilangt fangelsi.

Sem ríkisstjóri höfuðborgarinnar var hann jafnframt yfirmaður lögreglunnar. Dómstóllinn, sem hefur aðsetur í Tansaníu, segir ljóst að Renzaho hafi lagt á ráðin um morðin og hvatt bæði hermenn og almenna borgara til þess að setja upp vegatálma, þar sem hægt væri að stöðva för Tútsa á flótta og ráða þá af dögum.

Erik Mose, aðaldómari dómstólsins, sagði að Renzaho hafi sjálfur átt hlut að morðum á meira en 100 Tútsum í kirkju nokkurri. Hann hafi verið á staðnum bæði fyrir og eftir morðin og látið undir höfuð leggjast að stöðva þau.

„Hann tók einnig þátt í að fjarlægja líkin," sagði Mose.

Meira en hálf milljón manna varð hundrað daga morðæði Hútúa að bráð. Hinir myrtu voru bæði Tútsar, sem eru í minnihluta íbúa landsins, og hófsamir Hútúar, sem vildu hlífa Tútsum.

Stríðsglæpadómstóllinn í Tansaníu hefur þegar fellt dóma yfir 39 sakborningum, en sex þeirra voru sýknaðir. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×