Skoðun

Með lögum skal land byggja

Jón Gunnarsson skrifar
Ástand í lögreglumálum landsins er óþolandi. Við þessa þróun mála verður ekki unað. Öryggi borgaranna er grundvallaratriði í okkar samfélagi og við þær erfiðu og sársaukafullu aðstæður sem nú eru uppi verður að forgangsraða í þágu þeirra. Framlög til löggæslumála hækkaðu umfram launavísitölu á árunum 2004 til 2008. Um það má deila hvort nóg hafi verið að gert því ljóst er að verkefnum fjölgaði mikið á þessu tímabili. Ráðist hefur verið í mikilvægar og góðar skipulagsbreytingar á undanförnum árum og áfram verður að feta þá leið af skynsemi.

Atburðir vetrarins minna okkur á mikilvægi þess að hafa vel mannað lögreglulið. Það var aðdáunarvert að fylgjast með öryggisgæslu lögreglunnar við mjög krefjandi aðstæður á Austurvelli í vetur. Yfirvegun og skilningur einkenndu vinnubrögð og framkomu lögreglunnar á meðan almenningur lét reiði sína bitna á henni við skyldustörf. Á sama tíma lögðust einstaka þingmenn Vinstri grænna svo lágt að gagnrýna yfirveguð vinnubrögð þeirra og hreinlega hvöttu unga mótmælendur til að ganga lengra í mótmælum sínum. Nú situr þetta sama fólk við stjórnvölinn og við búum við aðgerðarleysi þeirra á þessum vettvangi sem öðrum.

Það verður ekki búið við að lögregla og Landhelgisgæsla, hornsteinar í öryggismálum, búi við það ástand að öryggi íbúanna sé ógnað og tilheyrandi atgervisflótti úr þessum stéttum verði staðreynd. Mikil hætta er á því ef ekki verður búið vel að því góða fólki sem sinnir þessum mikilvægu störfum. Við verðum að búa því mannsæmandi vinnuaðstöðu og tryggja öryggi þess sem best verður kosið.

Aðstæður í samfélagi okkar kalla á aukin verkefni lögreglu. Það sést best á þeirri aukningu afbrotamanna sem bíða afplánunar vegna yfirfullra fangelsa. Við þær aðstæður er óverjandi að fækka frekar í lögregluliði okkar. Á meðan endurskipulagning í málaflokknum fer fram verðum við að halda sjó. Það er algert ábyrgðarleysi af hálfu vinstri stjórnarinnar ef þess verður ekki gætt.

Höfundur er alþingismaður og formaður stjórnar Samhæfingarstöðvarinnar Skógarhlíð.










Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×