Innlent

Höfuðpaurarnir áður verið ákærðir fyrir stórfellt smygl

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Tveir menn sem sýknaðir voru í stóru kókaínmáli árið 2007 eru taldir vera höfuðpaurarnir í smygli á 109 kílóum af fíkniefnum. Þeir voru sýknaðir í málinu og stendur annar þeirra í skaðabótamáli við íslenska ríkið þar sem hann krefst fimmtán milljóna í bætur fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið.

Um borð í skútunni var Hollendingur sem áður hefur komið við sögu í fíkniefnamálum hér á landi og tveir Íslendingar, þeir Árni Hrafn Ásbjörnsson og Rúnar Þór Róbertsson.

Rúnar Þór og Jónas Árni Lúðvíksson sem hefur einnig verið handtekinn í tengslum við málið voru ákærðir fyrir stórfelldan innflutning á kókaíni árið 2007. Um var að ræða tæp 4 kg af kókaíni sem var falið í Mercedes Benz Sprinter bifreið sem var flutt til landsins frá Þýskalandi. Þetta var mesta magn kókaíns sem lagt hafði verið hald á í einu. Rúnar Þór var ákærður fyrir að hafa skipulagt innflutning efnisins og Jónas Árni fyrir að fjarlægja pakkningar með gerviefni, sem lögreglan hafði komið fyrir í stað kókaínsins, úr bílnum. Mennirnir neituðu báðir sök og voru sýknaðir.

Rúnar Þór hefur nú höfðað skaðabótamál gegn ríkissjóði vegna þanns tíma sem hann sat í gæsluvarðhaldi. Hann sat alls í rúma 5 mánuði í gæsluvarðhaldi og hljómar bótakrafan upp á 15 milljónir króna. Aðalmeðferð málsins er eftir viku í Héraðsdómi.

Það gæti þó farið svo að Rúnar Þór muni hafa öðrum hnöppum að hneppa en samkvæmt heimildum fréttastofu eru hann og Jónas Árni taldir vera höfuðpaurarnir í þessu stærsta smyglmáli sem lögreglan hefur upprætt. Af þeim 109 kílóum sem haldlögð voru var mest af amfetamíni en þá var töluvert af kannabisefnum, hassi og maírjúna og einnig mörg þúsund e- töflur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×