Innlent

Morgunblaðið: Ásakanir Jóns Ásgeirs hugarburður

Valur Grettisson skrifar
Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins.
Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Morgunblaðsins.

Ritstjóri Morgunblaðsins, Ólafur Þ. Stephensen, sagði í samtali við fréttamann Vísis að hann gerði athugasemdir við yfirlýsingu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Í yfirlýsingu sem birt er frá ritstjórn Morgunblaðsins á mbl.is segir að „hótanir" Morgunblaðsins og hringingar frá drukknum blaðamanni vegna málsins séu hugarburður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Sama eigi við ef Jón Ásgeir gefur í skyn að Morgunblaðið hafi reynt að kúga út úr honum fé. Skiptastjóri þrotabús Baugs hafi enga athugasemd gert við það sem eftir honum er haft í frétt blaðsins og staðfesti raunar í samtali við blaðið að rétt væri eftir honum haft.

Í yfirlýsingunni sakaði Jón blaðamann Morgunblaðsins um að hafa hringt kófdrukkinn í sig og reynt að kúga út úr sér fé. Þá fullyrti hann að rangt hafi verið haft eftir Erlendi Gíslasyni, skiptastjóra þrotabús Baugs, þegar hann sagði að skíðaskálasala væri til endurskoðunar.

Ólafur Stephensen vill ekki tjá sig um málið við Vísi umfram það sem kemur fram í yfirlýsingu.

Ekki hefur náðst í Erlend Gíslason, skiptastjóra þrotabús Baugs, til þess að bera undir hann fullyrðingar Jóns Ásgeirs um að rangt hafi verið haft eftir honum.


Tengdar fréttir

Sakar drukkinn blaðamann um hótanir

Auðmaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson sakar ónefndan blaðamann Morgunblaðsins um að hafa hringt í hann kófdrukkinn og reynt að kúga fé út úr sér gegn því að tölvupóstur sem Morgunblaðið birtir í dag yrði ekki birtur.

Skíðaskálaviðskiptum hugsanlega rift

Skiptastjóri þrotabús Baugs Group, Erlendur Gíslason, er að skoða hvort það séu forsendur fyrir því að rifta kaupum Gaums, eignarhaldsfélags Jóns Ágeirs Jóhannessonar, á frönskum skíðaskála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×