Innlent

Sprengjugengið leikur lausum hala á laugardaginn

Efnafræðingar við Háskóla Íslands, sem ganga undir nafninu Sprengjugengið, munu verða með efnafræðisýningu á heimsmælikvarða í Háskólabíó á næstkomandi laugardag þann 21. febrúar.

„Þarna munu gestir upplifa ótrúlegar litasjónhverfingar, óvenjulegar gastegundir verða á sveimi og ógurlegar sprengingar munu kitla hlustir gestanna," segir Jón Örn Guðbjartsson, markaðs- og kynningarstjóri Háskóla Íslands um þessa áhrifamiklu sýningu. Sýningin er hluti af framlagi Háskóla Íslands til Háskóladagsins en allar námsleiðir í háskólanámi á Íslandi verða kynntar í HÍ og í Ráðhúsinu á laugardag. Sjö háskólar kynna þá framboð sitt fyrir næsta skólaár segir Jón Örn.

„Sérfræðingarnir í Sprengjugenginu eru búnir að leggja nótt við dag seinustu vikur til að skapa hina fullkomnu efnabrellu sýningu," segir Jón Örn og glottir við tönn. „Já, heldur betur," bætir Sigurður V. Smárason, dósent í efnafræði við, en hann er einn helsti sprengjusérfræðingurinn. „Sýningin er við hæfi allrar fjölskyldunnar og verður bæði skemmtileg og fræðandi í senn," segir hann. Sigurður segir að í fyrra hafi færri komist að en vildu og því hvetur hann fólk til að mæta tímanlega í Háskólabíó. „Sýningin er í sal B og hefst hún stundvíslega klukkan eitt með miklum tilþrifum."

Að sögn Jóns Arnar er aðgangur ókeypis og svo bara er spurning hvort tónar frá hljómsveitinni Sprengjuhöllinni munu dynja undir sjónarspili efnafræðinganna úr Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×