Lífið

Dreymir um Íslandsferð

Spenntur fyrir Íslandi Larry Hagman langar að koma til Íslands og veiða lax.
Spenntur fyrir Íslandi Larry Hagman langar að koma til Íslands og veiða lax.

Dallas-leikarann Larry Hagman dreymir um að koma til Íslands og veiða lax. Þetta kemur fram í viðtali við kappann sem birtist í breska blaðinu Daily Telegraph. Þar er leikarinn spurður út í hina og þessa staði sem hann hafi komið til í gegnum tíðina, hvaða sumarleyfisstaðir standi upp úr og þar fram eftir götunum.

Hagman er hvað þekktastur fyrir túlkun sína á olíu-óþokkanum J.R. sem sveifst einskis við að ná sínu fram í baráttunni innan Ewing-fjölskyldunnar.

„Mig langar að veiða á Íslandi," segir Larry þegar hann er spurður hvert hann langi að fara næst í frí. „Ég hef heyrt að þeir séu með mjög fallegan lax í ánum hjá sér þannig að ég væri til í að pakka Stetson-hattinum og halda þangað," segir Larry sem, ef marka má viðtalið, er nokkuð víðförull maður.

Larry bætir því síðan við að hann hafi heyrt að Ísland sé eins og tunglið, nema bara með hverum, leirböðum og eldfjöllum.

„Þannig að þetta hljómar allt saman mjög spennandi. Það var samt synd hvernig fór fyrir efnahagnum hjá þeim." - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.