
Foreldrar geymi síðasta mánuðinn í þrjú ár

Til stóð að lækka hámarksgreiðslur foreldra í fæðingarorlofi úr 350 þúsund krónum á mánuði í 300 þúsund og að greiðslurnar yrðu aldrei hærri en 75 prósent af launum yfir 200 þúsundum í stað 80 prósenta áður. Þessi áform vöktu ekki almenna lukku og frá þeim hefur verið horfið.
Nú er sú hugmynd uppi að fæðingarorlofið verði stytt um mánuð og foreldrum sé þá gert skylt að geyma þennan eina mánuð í þrjú ár. Þegar barnið nær þriggja ára aldri fari foreldri í mánaðarfæðingarorlof.
Þessar hugmyndir hafa verið kynntar þingflokkum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en af því fer tvennum sögum hvort frumvarp þessa efnis sé fullgert og bíði þess eins að verða lagt fram.
Óljóst er hver sparnaðurinn af þessum breytingum verður en fyrirsjáanlegt er að þær munu hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélögin sem niðurgreiða gjöld til dagforeldra. Þá munu einnig vera í pípunum að gera breytingar á því hvernig orlofið skiptist milli föður og móður en í hverju þær nákvæmlega felast er enn á huldu.
Tengdar fréttir

Skerðingin vegur freklega að fjölskyldum í landinu
VR mótmælir harðlega skerðingu réttinda í fæðingarorlofi og segir hana vega freklega að réttindum fjölskyldna í landinu. Fyrr í dag mótmæltu BSRB og Kvenréttindafélags Íslands fyrirhugaðri skerðingu.

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlof lækkaðar
Hámarks greiðslur í fæðingarorlofi verða lækkaðar úr 350 þúsund krónum á mánuði í 300 þúsund, samkvæmt drögum að frumvarpi sem félagsmálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í morgun.

Hætt við að skerða fæðingarorlof
Ríkisstjórnin hefur fallið frá áformum sínum um að skerða greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Í staðinn verður foreldrum gert að geyma einn mánuð orlofsins þar til síðar. Þingflokkar VG og Samfylkingar hafa fallist á þessi áform. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Óttast að foreldrar fari fyrr út á vinnumarkaðinn
BHM telur skerðingu fæðingarorlofsgreiðslna ógna jafnrétti og vega að réttindum barna og fjölskyldna. Formaður Leikskólaráðs Reykjavíkurborgar sem nú er í fæðingarorlofi óttast að foreldrar fari fyrr út á vinnumarkaðinn vegna skerðingarinnar og kostnaður bitni á sveitarfélögunum.

Árni Páll endurskoði skerðingu á fæðingarorlofi
BSRB krefst þess að sparnaðarkrafa sem Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur boðað að verði lögð á fæðingarorlofssjóð verði endurskoðuð. Kvenréttindafélag Íslands varar við neikvæðum áhrifum fyrirhugaðrar skerðingar á stöðu foreldra á vinnumarkaði, sérstaklega kvenna.