Innlent

Mosfellingar vilja ekki vera afskiptir

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ mótmæla því harðlega að endurbætur á Vesturlandsvegi séu saltaðar en önnur verkefni sett í forgang enda sé kaflinn í gegnum bæinn einn hættulegasti og umferðarþyngsti þjóðvegur landsins.

Það sem brennur heitast á Mosfellingum er vegarkaflinn við Hlégarð sem liggur yfir Varmá, um Álafosshringtorgið og um svokallaða Ullarnesbrekku. Tvöföldun þessa kafla, milli Þingvallavegar og Hafravatnsvegar, átti að fara í útboð í vor þegar ríkisstjórnin setti á framkvæmdabann.

Bæjaryfirvöld funduðu nýlega með samgönguráðherra þar sem þau komu á framfæri hörðum mótmælum við því að þetta verkefni væri ekki sett í forgang en önnur tekin fram yfir. Þarna hefði orðið fjöldi alvarlegra slysa enda ækju þarna um 16 þúsund bílar á sólarhring.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu langþreytt á því hvað lítið fé fáist til vegabóta þar miðað við skatttekjur ríkisins af umferðinni á svæðinu, sem eru margfalt hærri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×