Erlent

Sáttatillaga frá Egyptum skoðuð

Um 600 manns hafa látist síðustu daga á Gaza.
Um 600 manns hafa látist síðustu daga á Gaza. MYND/AP

Ísraelar og Hamas samtökin eru nú að skoða tillögu frá Egyptum um vopnahlé á Gaza ströndinni. Bandaríkjamenn og Evrópusambandið hafa þegar lýst stuðningi við tillöguna.

Yfir 600 palestínumenn hafa fallið í árásum Ísraela undanfarna daga. Langflestir þeirra hafa verið óbreyttir borgarar þar á meðal mikill fjöldi barna. Sjö ísraelskir hermenn hafa fallið í valinn og þrír óbreyttir borgarar.

Egyptar höfðu milligöngu um vopnahlé sem rann út rétt fyrir áramótin þegar Hamas neituðu að framlengja það. Þeir hafa nú lagt fram nýja vopnahléstillögur. Hosni Mubarak forseti Egyptalands skýrði frá framtaki Egypta á fundi með Nicolas Sarkozu forseta Frakklands. Hann gaf engar upplýsingar um innihald tillagnanna.

Diplomatar segja að í þeim felist meðal annars að neðanjarðargöngum sem Hamas samtökin hafa notað til vopnaflutninga frá Egyptalandi verði lokað.

Andúð á hernaðaraðgerðum Ísraela jókst enn í gær eftir að skothríð frá þeim varð að bana 42 mönnum sem höfðu leitað hælis í skóla Sameinuðu þjóðanna á Gaza ströndinni.

Ísraelar segja að Hamas skýli sér á bakvið óbreytta borgara. Talsmaður hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna á Gaza sagði hinsvegar að eftir frumrannsókn á málinu séu þeir 99,9 prósen vissir um að engir vígamenn hafi verið í skólanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×