Innlent

Lamdi getnaðarlim sínum framan í tólf ára dreng

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands.
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands.
Þrír piltar voru í dag fundnir sekir af í Héraðsdómi Suðurlands fyrir kynferðisbrot gegn tólf ára gömlum dreng. Dómari frestaði refsingu í málinu en dæmdi piltana til þess að greiða drengnum 100 þúsund krónur í bætur. Atvikið varð með þeim hætti að drengurinn var að koma af æfingu í íþróttahúsi í bæjarfélagi á Suðurlandi í janúar á síðasta ári þegar piltarnir, sem þá voru fimmtán ára gamlir, réðust að honum. Tveir þeirra héldu drengnum á meðan sá þriðji leysti niður um sig buxurnar og sló getnaðarlim sínum ítrekað í andlit og hendur drengsins.

Drengurinn kærði atvikið til lögreglu og var í framhaldi sendur á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Fyrir dómi sögðu piltarnir að ekki hafi verið um kynferðisbrot að ræða heldur aðeins „grín" sem hefði viðgengist til margra ára. Verjendur bentu meðal annars á að piltinum sem sló drenginn með lim sínum hafi ekki risið hold og því væri ekki um kynferðislegan verknað að ræða. Til að renna stoðum undir þau rök var meðal annars kallaður til hjúkrunarfræðingur á Barna- og unglingageðdeild sem mat það svo að ekki væri um kynferðislegan verknað að ræða, út frá þeim gögnum sem hún hefði séð.

Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að „sú háttsemi að fá beran getnaðarlim í andlit eða á líkama, gegn vilja sínum, hlýtur að brjóta gegn kynfrelsi einstaklingsins og teljast auk þess siðlaus háttsemi. Breytir þar engu um að sú háttsemi sé talin eðlileg af einstökum einstaklingum, hópum eða undir vissum kringumstæðum," segir í dómnum og því bætt við að engu breyti heldur í þessu sambandi að ákærða hafi ekki risið hold á meðan atvikið átti sér stað eða að hann hafi talið háttsemina vera stríðni. Háttsemin hafi verið til þess fallin að hafa einhvers konar kynferðisleg hughrif hjá brotaþola. Því var það mat dómsins að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×