Innlent

Óttast að málshöfðunin sé að klúðrast

Indefence hópurinn sakar íslensk stjórnvöld um sinnuleysi og doða í undirbúningi málshöfðunar gegn breska ríkinu og óttast að málið sé að klúðrast. Frestur Kaupþings til að höfða mál rennur út eftir þrjá daga. Talsmaður hópsins segir það amlóðaskap af ríkisstjórninni ef hún ætlar að láta sér þetta tækifæri úr greipum ganga.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að skilanefnd Kaupþings vinni hörðum höndum að því að undirbúa málshöfðun gegn breskum stjórnvöldum - en frestur til þess rennur út á miðvikudaginn. Indefence hópurinn sem hefur nú vikum saman reynt að rétta við ímynd Íslands vegna beitingu hryðjuverkalaganna og Icesave deilunnar, óttast hins vegar að tækifærið sé að renna okkur úr greipum.

Hópurinn, sem hefur safnað rösklega 80 þúsund undirskriftum fólks sem hafnar því að Íslendingar séu hryðjuverkamenn, hélt í dag blaðamannafund. Tilefni fundarins var að þrýsta á stjórnvöld að höfða mál - og talsmenn hópsins greinilega farnir að örvænta um að stjórnvöld aðhafist nokkuð í þessu stóra hagsmunamáli.

Bentu þeir meðal annars á að skuldsetning íslenska ríkisins í erlendri mynt yrði með Icesave ábyrgðum umtalsvert meiri en þegar Argentína lýsti yfir þjóðargjaldþroti fyrir fáum árum. Hópurinn lýsti eftir þeim myndugleika sem einkenndi íslenska ráðamenn í sjálfstæðisbaráttunni og þorskastríðinun. Einn talsmanna hópsins segir að þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og tillögur hópsins til stjórnvalda hafi hópurinn verið daufheyrður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×