Innlent

Hektarinn á 20.000 krónur

Verndari Auðlindar hvatti fólk til árvekni í náttúruverndarmálum og flutti ljóð eftir Þorstein heitinn Gylfason. fréttablaðið/valli
Verndari Auðlindar hvatti fólk til árvekni í náttúruverndarmálum og flutti ljóð eftir Þorstein heitinn Gylfason. fréttablaðið/valli
Einstaklingar eða fyrirtæki ættu að geta endurheimt einn hektara af framræstu votlendi í náttúru Íslands með því að leggja fram eitthvað á milli tuttugu til fjörutíu þúsund krónur í náttúrusjóðinn Auðlind. Sjóðurinn var stofnaður fyrir ári og hélt upp á afmælið í gær. Lengi hafði staðið til að stofna sjóðinn og þegar loks var slegið til skall á kreppa, segir Salvör Jónsdóttir, formaður Auðlindar.

„Á tímabili komu upp vangaveltur um hvort rétt væri að gera þetta við þessar aðstæður en við ákváðum að fara af stað og nýta tímann til að byggja upp starfsemina,“ segir hún.

Að mörgu þurfi að huga. Það liggi til dæmis ekki endilega í augum uppi hvernig eigi að verðlauna fólk fyrir að stuðla að uppgangi arnarstofnsins.

Tilgangur Auðlindar er að „vernda þjóðararfinn sem felst í náttúru Íslands og stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúrunnar“, segir í tilkynningu. Þetta verður meðal annars gert með því að styrkja einstök verkefni næsta sumar.

Vaxi sjóðnum fiskur um hrygg gæti hann líka keypt jarðir, sett á þær náttúruverndarskilyrði og svo selt þær aftur, en fyrirmynd er fyrir slíku erlendis frá, segir Salvör. - kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×