Lífið

Mamma Mia! í 29 þúsund eintökum

Söngvamyndin vinsæla hefur slegið öll met hér á landi sem og annars staðar.
Söngvamyndin vinsæla hefur slegið öll met hér á landi sem og annars staðar.

DVD-útgáfa söngvamyndarinnar Mamma Mia! seldist í 29 þúsund eintökum fyrir jólin.

Þar með er hún orðin söluhæsta DVD-myndin frá upphafi á Íslandi. „Við bjuggumst við 25 til 30 þúsundum og þetta er alveg á því róli. Þetta er bara frábært og stendur fyllilega undir væntingum,“ segir Halldór Sigurbjörn Guðjónsson, sölustjóri Myndforms. „Það koma tvö þúsund stykki núna rétt eftir áramót því hún er uppseld eins og er.“

Næstvinsælasta DVD-útgáfan var Laddi 6-Tugur sem seldist í um 23 þúsund eintökum. „Við tókum fimmtán þúsund í upphafi og héldum að við værum að skjóta aðeins yfir markið. En þetta er titill sem selst allt árið um kring og hann er svo ofboðslega vinsæll hann Laddi,“ segir Konstantin Mikaelsson, yfirmaður kvikmyndadeildar Senu, „Svo var salan það gríðarlega mikil að við bættum við tíu þúsundum.“

Þriðja vinsælasta myndin var The Dark Knight sem seldist í um sextán þúsund eintökum. „Hún seldist þrisvar upp hjá okkur og við þurftum að panta hana aftur og aftur. Við vissum að hún yrði stór en ekki svona stór,“ segir Ómar Friðleifsson hjá Sam-myndum.

Númer fjögur var Brúðguminn sem seldist í um þrettán þúsund eintökum og teiknimyndin Kung Fu Panda í fimmta sæti með tólf þúsund.

Loks seldist Dagvaktin í um tíu þúsund eintökum, sem er mun minna en Næturvaktin seldist fyrir síðustu jól, sem voru sextán þúsund eintök. „Það var auðvitað mikið nýjabrum í kringum Næturvaktina. Þegar önnur sería kemur er alltaf minni spenningur. Auðvitað hefðum við viljað selja meira en þetta var ekkert langt frá okkar væntingum,“ segir Konstantin - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.