Innlent

Trúnaður við Breta og Hollendinga kom í veg fyrir birtingu póstanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Indriði H. Þorláksson. Mynd/ GVA.
Indriði H. Þorláksson. Mynd/ GVA.
Ekki var unnt að gera tölvupóstsamskipti Indriða H. Þorlákssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra, við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins opinber á upplýsingasíðu stjórnvalda, líkt og gert var með flest önnur gögn málsins án samþykkis gagnaðila Íslands í alþjóðasamskiptum. Þess vegna var gripið til þess ráðs að gera þau aðgengileg alþingismönnum gegn yfirlýsingu um trúnað.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem fjármálaráðuneytið hefur birt vegna frétta af samskiptum Indriða við Mark Flanagan og Franek Rozwadowski í gærkvöldi og í dag.

Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að aðdragandi tölvupóstsamskiptana sé að ný samninganefnd um Icesave hafði unnið að undirbúningi fyrir viðræður við Breta og Hollendinga í nokkrar vikur. Viðræður fyrri samninganefndar hafi legið niðri og ekki skilað árangri í því að fá því breytt sem fyrir lá í viljayfirlýsingu við Holland þar sem kveðið hafi verið á um 10 ára lán með 6,7% ársvöxtum og yfirlýsingum um væntanlegt samkomulag við Breta um hliðstæða lausn.

Nýja samninganefndin hafi mótað hugmyndir um nýja nálgun sem hafi verið þessu frábrugðin og hagstæðari Íslandi. Megindrættir þeirrar hugmyndar hafi verið kynntir með óformlegum hætti fyrir Bretum og Hollendingum sem hafi tekið henni dræmlega en ekki útilokað að skoða hana nánar.

Fundur samninganefndanna til að ræða þetta og hvernig koma mætti viðræðum af stað hafi verið ákveðinn í Kaupmannahöfn skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×