Lífið

Tveir er hin fullkomna tala

Hank & Tank & Lundar Þorgeir er Tank en Henrik er Hank.Mynd/Pétur Eyvindsson
Hank & Tank & Lundar Þorgeir er Tank en Henrik er Hank.Mynd/Pétur Eyvindsson

Út eru komnar tvær plötur sem eiga það sameiginlegt að Henrik Björnsson í Singapore Sling er á þeim báðum. Þetta er platan Songs for the birds með dúettinum Hank & Tank (Henrik og Þorgeir Guðmundsson) og samnefnd plata með dúettinum The Go-Go Darkness (Henrik og Elsa María Blöndal). Öll þrjú hittu Dr. Gunna.

„Það var annaðhvort að koma þessu út fyrir Airwaves eða jólin og við ákváðum að kýla á jólin,“ segir Henrik.

„Hank og Tank-platan er búin að taka sex ár í vinnslu og markmiðið var bara að koma henni út,“ segir Þorgeir. „Við byrjuðum árið 2004 að taka plötuna upp með Barða Jóhannssyni og svo höfum við verið að sauma við hana af og til síðan.“

„Já og bíða eftir þessari Þorláksmessu!“ segir Henrik.

Eftirvænting og eftirsjá
The Go-go darkness Elsa María og Henrik.mynd/ramses granados
Plata Hank og Tank er þrungin karlmannlegri spennu og Þorgeir segir hana innihalda báðar tegundir tónlistar, Country og Western. Lee Hazlewood eru nokkuð áberandi áhrifavaldur og platan er ekkert falsettuvæl, enda Þorgeir einn kraftmesti strigabassi landsins. Þorgeir segir plötuna vera góða til áhlustunar bæði fyrir og eftir skrall. „Rokkið er eftirvæntingin eftir kvöldinu, en kántríið er eftirsjáin daginn eftir. Mér finnst þessi plata virka á hvort tveggja, en líklega er þó meiri eftirsjá en eftirvænting.“

„Ekki það að þetta sé kántrí samt,“ segir Henrik. Hann segir að hljómsveitina Singapore Sling alls ekki hætta, hann sé bara að gera annað núna. Stefnt er á að kynna plöturnar á tónleikum, en Go-Go Darkness hefur aldrei spilað og Hank & Tank bara einu sinni á Íslandi, á Sirkus. „Eftir það fórum við reyndar á túr um Frakkland með Keren Ann og spiluðum meðal annars á Olympia í París. Það þykir nú flott,“ segir Þorgeir. Ekkert djókSumarið 2008 var Henrik búinn að fá leið á hinum hefðbundnu rokk-hljóðfærum (gítar, bassa, trommum) og vildi prófa að gera tónlist með einungis orgeli, trommuheila og söngrödd Elsu. Þannig varð The Go-Go Darkness til. Smám saman bættist þó aðeins við hljóðfæragalleríið. „Við vorum bara eitthvað að leika okkur og þetta vatt upp á sig,“ segir Henrik.

„Við vildum bara hafa þetta voðalega beisik og ekkert flókið,“ segir Elsa, sem hefur lítið sungið áður, en þó bakraddir með Singapore Sling. Hún er litla systir Möggu Stínu og Sölva Blöndal svo það kemur kannski ekki á óvart að hún syngi líka. „Já, af hverju ekki að prófa þetta? Þessi plata er þó ekkert djók. Heldurðu að við séum eitthvað að djóka hérna?“

Henrik, Þorgeir og Elsa segja böndin tvö alveg aðskilin og enginn möguleiki á samsteypunni Go-go-hank og tank. „Nei, tveir er hin fullkomna tala. Þrír gengur ekki upp,“ segir Henrik. „Tveir eru rokk og ról, þrír eru djass.“

„Og þríhjól eru náttúrlega afleit!“ segir Þorgeir.

Listamennirnir gefa plöturnar út sjálfir en 12 tónar dreifa í betri verslanir landans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.