Erlent

Óskaði Obama alls hins besta - hryðjuverkaárás vofir enn yfir

George W. Bush fráfarandi Bandaríkjaforseti hélt sinn síðasta blaðamannafund á ferlinum í Hvíta húsinu í dag. Hann sat fyrir spurningum fréttamanna og þar kom meðal annars fram að engar líkur séu á vopnahléi á Gaza svæðinu ef Hamas samtökin hætta ekki að skjóta eldflaugum á Ísrael.

Þegar Bush var spurður að því hvaða hættu verðandi forseti standi helst frammi fyrir svaraði hann til að enn væri mikil hætta á hryðjuverkaárás á bandaríska grund. Hann tiltók sérstaklega Íran og Norður - Kóreu og sagði að þau lönd væru enn hættuleg. Eigi samsktipti þessara ríkja við Bandaríkin að batna verði þau að standa við skuldbindingar sínar í kjarnorkumálum.

Bush var einnig spurður að því hvað hann „óttaðist" mest að Barack Obama muni gera þegar hann hefji störf og sagðist hann ekki vilja spá fyrir um gjörðir arftaka síns. Hann óskaði honum alls hins besta og sagði að hann muni hverfa af sviðinu og ekki gagnrýna eftirmann sinn á neinn hátt. Það væri óvinur á sveimi sem vilji ráðast að Bandaríkjunum og hann óskaði Obama alls hins besta í þeirri baráttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×