Innlent

Með haglabyssu að hefna sín á Íslendingum

Tveir Danir sem fóru halloka fyrir Íslendingum í slagsmálum í bænum Haslev í Danmörku í gær fengu vin sinn til þess að mæta með afsagaða haglabyssu til þess að hefna harma sinna. Kráareigandinn, Frank, segir engum vopnum hafa verið beitt inn á kránni.

Þeir fóru hinsvegar húsavillt. Þeir skutu á glugga á heimavist í skóla nokkrum þar sem þeir héldu að Íslendingarnir byggju. Innan dyra þar voru hinsvegar aðeins alsaklausir Pólverjar sem hringdu samstundis í lögregluna. Lögreglan kom og handtók byssumennina án vandræða. Slagsmálin urðu á Bykroen sem er vinsæll samkomustaður í þessum tíu þúsund manna bæ.

-Þetta voru svosem ekki alvarleg slagsmál, sagði Frank sem vinnur á Bykroen í samtali við fréttastofuna.

-Menn voru svona með glóðarauga og eitthvað blóðgaðir.

-En það var engum vopnum beitt á kránni. Þetta voru aðeins venjuleg kráarslágsmál. Svo fóru Danirnir náttúrlega og sóttu haglabyssu. En þeir komu aldrei með hana hingað inn.

Frank sá ekki slagsmálin sjálfur en hafði heyrt að fimm Íslendingar hefðu ráðist á tvo Dani. Því harðneita Íslendingarnir.

Einn þeirra var kona sem ekki vill láta nafns síns getið. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að hún hafi verið á kránni ásamt eiginmanni sínum tveim sonum og dönskum tengdasyni.

Danirnir tveir hafi byrjað að abbast upp á annan soninn og kýlt hann í andlitið. Bróðir hans hafi þá komið til hjálpar. Þeir hafi slegið Danina niður og skilið þá eftir liggjandi á gólfinu.

Eftir að heim komu létu Íslendingarnir lögregluna vita af slagsmálunum en hún aðhafðist ekkert.

Danirnir mega búast við að vera tugtaðir til vegna skothríðarinnar, en ólíklegt er að nokkur eftirmáli verði fyrir Íslendingana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×