Erlent

Tveggja klukkustunda hópnauðgun

Óli Tynes skrifar
Salvador Rodriguez er talinn hafa stjórnað árásinni.
Salvador Rodriguez er talinn hafa stjórnað árásinni.

Bandaríkjamenn eru sem þrumu lostnir yfir tveggja klukkustunda hópnauðgun á fimmtán ára stúlku, sem fjöldi manns horfði á án þess að aðhafast nokkuð annað en taka myndir af ódæðinu.

Stúlkan hafði farið út af skólaballi í Richmond gagnfræðaskólanum í San Francisco til þess að hringja í föður sinn og biðja hann um að sækja sig.

Hún hitti fyrir hóp annarra unglinga sem töldu hana á að koma með sér á afvikinn stað þar sem setið var að drykkju.

Stúlkan varð fljótlega ofurölvi og þá var ráðist á hana. Að minnsta kosti fjórir nauðguðu henni hvað eftir annað í árás sem stóð í tvær klukkustundir.

Talið er að einir tíu aðrir hafi verið viðstaddir. Þeir aðhöfðust þó ekkert til þess að hjálpa stúlkunni eða kalla til öryggisverði skólans.

Sagt er stúlkan hafi einnig verið barin, en hún fannst liggjandi meðvitunarlaus undir garðbekk eftir árásina. Fjórir ungir menn hafa verið handteknir og ákærðir fyrir nauðgun og misþyrmingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×