Innlent

Hafa áhyggjur af stöðu Icesave málsins

Samtökin In Defence of Iceland (indefence.is) hafa undanfarna mánuði barist fyrir því að leiðrétta ímynd Íslands í útlöndum og verja gríðarlega fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar. Í ljósi alvarlegrar stöðu Icesave málsins boða samtökin til blaðamannafundar til að ræða stöðuna í milliríkjadeilu Íslands og Bretlands.

Samtökin hafa verulegar áhyggjur af þeirri stöðu sem komin er upp í fyrirhuguðum málaferlum vegna beitingar bresku stjórnarinnar á hryðjuverkalögum gegn íslenskum hagsmunum. Málshöfðunarfrestur í máli Kaupþings banka hf. gegn breska ríkinu er að

renna út og enn hefur ekki verið gefin út stefna í málinu fyrir breskum dómstólum.

Á fundinum verður farið ítarlega yfir afleiðingar milliríkjadeilunnar fyrir íslensku þjóðina og núverandi staða málsins í Bretlandi kynnt. Gerð verður grein fyrir einstökum samskiptum íslenskra ráðamanna við breska stjórnmálamenn og nýjar upplýsingar frá Lávarðadeild breska þingsins verða kynntar.

Fundurinn hefst klukkan 16:00 í dag, sunnudaginn 4. janúar, í fundarherbergi Uppsala á Grand Hótel Reykjavík við Aðalstræti 16 í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×